Nelson Piquet sem vann á sínum tíma þrjá heimsmeistaratitla ökuþóra gæti átt von á lífstíðarbanni frá Formúlu 1 keppnum eftir rasísk ummæli hans um Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes.

Samkvæmt heimildum The Sun eru forráðamenn Formúlu 1 með það til skoðunar að dæma Piquet í lífstíðarbann en samband ökuþóra, forráðamenn Formúlunnar, aðrir ökuþórar og bílaframleiðendur komu Hamilton til varnar í gær.

Eins og fjallað var um á vef Fréttablaðsins í gær lét Piquet ljót orð falla um Hamilton þegar hann rifjaði upp atvik frá síðasta tímabili.

Brasilíumaðurinn ákvað að gera grín að húðlit Hamilton með niðrandi ummælum þegar hann talaði um að breski ökuþórinn hafi verið heppinn að Verstappen hafi lent í árekstrinum en að Bretinn hafi sloppið nokkuð vel.