Sir Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Mercedes segir eitthvað stórkostlegt þurfa að gera svo hann nái í sigur á tímabilinu. Bíll Red Bull Racing sé í sérklassa og illviðráðanlegur.

Takist Hamilton ekki að vinna sigur í kappakstri á tímabilinu verður það í fyrsta skipti á hans ferli í Formúlu 1 sem hann fer í gegnum tímabil í mótaröðinni án þess að vinna kappakstur.

„Við þurfum bara að vera raunsæ. Það er nánast ómögulegt að bera sigur úr býtum gegn þessum Red Bull bíl. Frammistöðulega séð höfum við ekki náð þeim og þá eru ekki í vændum uppfærslur á bílnum sem gætu gert okkur kleift að taka fram úr þeim. Þannig við þurfum að treysta á gömlu góðu heppnina ef við ætlum að vinna kappakstur," sagði Hamilton í viðtali eftir Formúlu 1 keppni síðustu helgar á Monza.

Verstappen hefur verið í algjörum sérflokki á Red Bull Racing bílnum og er með 116 stiga forystu á Charles Leclerc og níu fingur á heimsmeistaratitlinum þegar sex keppnishelgar eru eftir af tímabilinu.