Körfuboltadeild Vals hefur gert samkomulag við Sinisa Bilic um að hann leiki með karlaliði félagsins á komandi keppnistímabili. Sinisa er 31 árs gamall Slóveni sem lék við góðan orðstír með Tindastóli á síðustu leiktíð þar sem hann leiddi liðið í stigaskori með tæp 20 stig í leik.

Sinisa er hávaxinn framherji sem getur leyst margar stöður á vellinum en hann hefur leikið lengst af í Slóveníu og Slóvakíu á sínum ferli.

Þetta er fyrsti leikmaðurinn sem Finnur Freyr Stefánsson fær til liðs við Valsliðið en hann tók við liðinu í vor. Finnur Freyr hefur hins vegar verið duglegri við að losa sig við leikmenn en Ragnar Nathanaelsson, Austin Magnus Bracey, PJ Alawoya, Naor Sharabani og Illugi Auðunsson sem léku með liðinu síðasta vetur eru horfnir á braut.

Valur hafnaði í 10. sæti Domino's-deildarinnar sem var hætt í mars síðastliðnum vegna kórónaveirufaraldursins og slapp við fall úr deildinni.