Keppnistímabilið í Formúlu 1 mun hefjast í Austurríki 5. júlí næstkomandi en fyrstu átta kappakstrar keppnistímabilsins munu fara fram á brautum í Evrópu. Keppni í Formúlu 1 var frestað vegna kórónaveirufaraldursins.

Fram kemur í yfirlýsingu sem forráðamenn Formúlu 1 sendu frá sér fyrr í dag að fyrstu tveir kappakstrarnir verði haldnir í Austurríki þann 5. og 12. júlí og helgina þar á eftir verði keyrt í Ungverjalandi.

Þá verður gert tveggja vikna hlé áður en keppt verður í Bretlandi, Spáni, Belgíu og Ítalíu. Allar þessar keppnir verða haldnar án áhorfenda. Keppendur munu svo fylgja fyrirmælum sem eiga að minnka líkur á smiti á Covid-19.

Frekara framhald á keppninni hefur ekki verið ákveðið en staðan verður tekin þegar líða tekur á sumarið hvar mögulegt verður að keppa næsta haust.

Planið er að keppnismtímabilið muni samanstanda af 15 - 18 kappökstrum og leiktíðinni ljúki í desember síðar á þessu ári. Talið er að lokahnykkur tímabilsins verði í Bahrein í upphafi desember og lokamótið svo Abu Dhabi um miðjan mánuðinn.

Enn fremur er stefnt að því að halda keppnir í Kína, Víetnam og Japa í október síðar á þessu ári verði smit áfram í lágmarki á þeim stöðum. Meiri óvissa er hins vegar um hvort fyrirhugaðar keppnir í Rússlandi, Aserbaídsjan, Bandaríkjunum, Mexíkó og Brasilíu muni fara fram þar vegna slæmrar stöðu hvað faraldurinn varðar á þeim stöðum.

Dagskráin í Formúlu eins og sakir standa lítur svona út:

3. - 5. júlí - Austurríki (Red Bull Ring)

10. - 12 júlí - Austurríki (Reb Bull Ring)

17. - 19 júlí - Ungverjaland (Hungaroring)

31. júlí - 2. ágúst - Bretland (Silverstone)

7.- 9. ágúst - 70 ára afmæliskappakstur á Silverstone

14. - 16. ágúst - Spánn, Barcelona

28. - 30. ágúst - Belgía

4. - 6. september - Ítalía