Watford vann loksins fyrsta sigur sinn á tímabilinu í kvöld þegar Watford vann 2-0 sigur á Norwich og sendi nýliðana í neðsta sæti deildarinnar.

Watford sem er eina liðið í deildinni sem er búið að skipta um knattspyrnustjóra á tímabilinu lyfti sér upp í átjánda sætið með sigrinum.

Gerald Deulofeu kom gestunum yfir á Carrow Road á upphafsmínútum leiksins og bætti Andre Gray við marki í upphafi seinni hálfleiks.

Christian Kabasele var vísað af velli um miðbik seinni hálfleiks en tíu leikmönnum Watford tókst að halda út og landa langþráðum sigri.

Þetta var fyrsti sigurleikur Watford í tæpa sjö mánuði í deildinni.