Þór Akureyri vann fyrsta leik sinn á tímabilinu í kvöld þegar Þórsarar gerðu sér góða ferð í Origo-höllina og unnu níu stiga 88-79 sigur á Val.

Sigurinn var fyllilega verðskuldaður eftir að gestirnir leiddu með nítján stigum í hálfleik. Valsliðinu tókst að minnka muninn í seinni hálfleik en Þórsarar náðu að halda sjó.

Þór er áfram í neðsta sæti deildarinnar en er komið með fyrstu stig vetrarins á meðan Valsmenn eru í frjálsu falli og hafa tapað fimm leikjum í röð.

Á Sauðárkróki náði Tindastóll að vinna nauman 72-67 sigur á Þór Þorlákshöfn í fyrsta leik liðanna síðan Baldur Þór Ragnarsson yfirgaf Þórsara og samdi við Stólana.

Leikurinn var kaflaskiptur og skiptust liðin á að spila öflugan varnarleik en í fjórða leikhluta sneru Stólarnir leiknum sér í hag og unnu fimmta leikinn í röð.

Á sama tíma unnu Grindvíkingar annan leikinn í röð þegar þeir heimsóttu ÍR og unnu 92-90 sigur í Hertz-hellinum.

Breiðhyltingar leiddu með átta stigum í hálfleik en Grindavík tókst að skjótast fram úr á lokamínútum leiksins.

Þá vann Njarðvík fjórða leikinn í röð þegar Haukar heimsóttu Njarðvík og fóru tómhentir heim eftir 89-75 sigur heimamanna.

Njarðvíkingar náðu snemma frumkvæðinu í leiknum og voru með góð tök á andstæðingum sínum í Ljónagryfjunni.