Jacob Hessellund, leikmaður Lemvig-Thyborøn steig fram á dögunum og opinberaði samkynhneigð sína. Hann er fyrsti karlkyns handboltamaðurinn frá Danmörku í rúm 20 ár til þess að koma út úr skápnum.

Leikmaðurinn greindi frá þessum tíðindum inni í búningsherbergi hjá Lemvig-Thyborøn eftir leik liðsins. Hann hafði áður talað við liðsfélaga sinn og stjórnanda í félaginu, Søren Pedersen varðandi málið og í búningsklefanum sagði Søren að Jacob vildi deila fréttum með liðinu.

Jacob greindi liðsfélögum sínum frá því að hann væri samkynhneigður og er fyrsti danski atvinnumaðurinn í handbolta til að koma út úr skápnum síðan Morten Fisker, fyrrum leikmaður Viborg gerði það árið 2003.

Hann segir það hafa tekið sig langan tíma að átta sig á því hver hann væri og að samþykkja þá staðreynd. Hann vill að saga sín verði fordæmisgefandi fyrir aðra sem kannski þora ekki að opinbera samkynhneigð sína.

Jacob segir erfið veikindi móður sinnar, sem lést úr krabbameini, hafa ýtt sér af stað í vegferð sína. Hann náði að segja henni að hann væri samkynhneigður áður en hún lést. Móðir hans tók fréttunum fagnandi og síðan þá hefur Jacob sagt fleirum frá kynhneigð sinni.

,,Vonandi mun saga mín hjálpa fleirum. Ég tel okkur komin vel á veg í þessum efnum en ég vonast til þess að samfélögin sem við lifum og hrærumst í muni á einhverjum tímapunkti ekki finnast það fréttnæmt að greina frá því að einhver sé samkynhneigður."

,,Við erum svo miklu meira en bara kynhneigð okkar. Ég er fullviss um að það sé pláss fyrir fleiri samkynhneigða í íþróttum almennt." Jacob fékk ekkert nema góð viðbrögð frá liðsfélögum sínum sem tóku utan um hann, þökkuðu honum fyrir og hvöttu hann til dáða.

Viðtal Sport TV2 við Jacob Hessellund má lesa hér.