Þrátt fyrir mótmæli fyrir utan keppnishöllina og mótlæti í aðdraganda keppninnar varð Lia Thomas í gær fyrsta transkonan til að vinna landsmeistaratitil í bandarísku háskólaíþróttunum þegar hún kom fyrst í mark í 500 metra skriðsundi.

Thomas var 1,75 sekúndu á undan næsta keppanda í mark en að sögn ESPN var sem dúnalogn í höllinni þegar hún var heiðruð sem sigurvegari mótsins.

Thomas synti áður fyrir karlalið Penn en eftir kynleiðréttingarferli hefur hún verið í sérflokki og bætt fjölmörg met í kvennaflokki á stuttum tíma.

Mótmælendur létu í sér heyra fyrir utan keppnishöllina, meðal annars frá samtökunum Bjargið kvennaíþróttum (e. Save Women's Sports).

Þá var Barbara Ehardt frá fulltrúaþingi Idaho mætt til að mótmæla þátttökurétti Thomas en Ehardt lagði fram umdeilt lagafrumvarp sem skipaði transfólki að keppa í íþróttum samkvæmt fæðingarkyni.