Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á sínu fyrsta stórmóti með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu. Karólína leikur með þýska stórveldinu Bayern Munchen og er einn af mest spennandi leikmönnum Íslands um þessar mundir. Hún verður með góðan stuðning á bak við sig í Englandi.

„Við erum að fara nokkuð stór hópur saman, fjölskyldan, og ætlum að vera á svæðinu í tólf daga. Það eru þrír leikir á tólf dögum og við ætlum að nýta tímann vel á milli leikja,“ segir Vilhjálmur Kári Haraldsson, faðir Karólínu Leu, aðspurður hvort margir muni fylgja sóknartengiliðnum út á fyrsta stórmót Karólínu.

„Við höfum oft farið á leiki erlendis og fylgdumst með karlalandsliðinu en þetta er frumraun okkar á stórmóti kvennalandsliða. Þetta er um leið í fótboltaborg, tvö frábær lið á svæðinu og stutt yfir til Liverpool. Við ætlum að nýta tímann um leið til að reyna að sjá einhverja velli.“

Hann á von á góðri stemningu á leikjunum. „Algjörlega, ég hugsa að það myndist góð stemning á mótinu. Það eru því miður ekki nægilega margir miðar í boði en við sem verðum þarna munum njóta þessara stunda.“

Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu fer fram á sunnudaginn kemur. Andstæðingurinn í þeim leik verður Belgía