Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður Bayern Munchen, fékk sjaldséða hvíld í gær þegar hún fylgdist með af varamannabekknum í 5-0 sigri Íslands á Kýpur.

Það er fyrsti keppnisleikur Íslands í rúm átta ár sem Glódís er ekki í byrjunarliðinu sem telur 39 leiki.

Fara þarf aftur til Evrópumótsins 2013 í leik Íslands og Svíþjóðar í útsláttarkeppninni til að finna síðasta keppnisleikinn sem Glódís missti af.

Síðan þá var Glódís búin að byrja tuttugu leiki í röð í undankeppni HM, sextán leiki í röð í undankeppni EM og alla þrjá leiki Íslands í lokakeppni EM 2017.

Í þessum 39 keppnisleikjum sem Glódís byrjaði var hún aðeins einu sinni tekin af velli um miðbik seinni hálfleiks í undankeppni HM 2015 gegn Danmörku.

Glódís var því búin að leika 3485 mínútur af síðustu 3510 í öllum keppnum fyrir Ísland áður en hún fékk hvíld í gær.