Leikmannahópur Manchester City kostar yfir milljarð evra samkvæmtnýrri skýrsluCIES Football Observatory sem er svissneskt tölfræðifyrirtæki sem hefur skoðað leikmannahópana í fimm stærstu deildum Evrópu, Englandi, Spáni, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi. City er fyrsta liðið sem kostar yfir milljarð evra.

Paderborn er ódýrasta liðið í þessum deildum en hópurinn þar á bæ kostar skitnar fjórar milljónir evra. Þetta er í fyrsta sinn sem lið fer yfir milljarð evra segir í skýrslunni. PSG er í öðru sæti með leikmannahóp sem kostar 913 milljónir evra og Real Madrid er með hóp sem kostar 902 milljónir.

Mesti verðmunurinn er á Spáni þar sem leikmannahópurinn Real Madrid er 148 sinnum dýrari en hjá Mallorca sem er ódýrastur. Hópur PSG er 85 sinnum dýrari en Nimes og Bayern er með 85 sinnum dýrari en Paderborn. Munurinn á dýrustu hópunum og þeim ódýrustu er gífurlegur og bilið eykst með hverju árinu.

CIES hefur gefið út þessa skýrslu síðan árið 2005. Þar segir að stóru deildirnar hafi eytt 6,6 milljörðum í leikmenn sem er 10 prósent aukning frá metárinu 2017. Bara árin 2012 og 2018 minnkaði eyðslan milli ára. Árið 2010 eyddu liðin 1,5 milljarði evra. Þrjár deildir bættu eyðslumetið, á Spáni, Ítalíu og Þýskalandi var eytt sem aldrei fyrr.

Síðan árið 2010 hefur Manchester City eytt 1,6 milljörðum evra í leikmenn. Barcelona, Chelsea og PSG fylgja í humátt á eftir en alls hafa níu lið eytt meira en milljarði evra í leikmenn á þessum árum. Liverpool rétt slefar yfir milljarðinn en Inter reyndi hvað það gat til að komast yfir milljarðs markið en tókst ekki.

Atletico Madrid var stórtækt á leikmannamarkaðnum og eyddi 329 milljónum evra í nýja leikmenn fyrir tímabilið. Real henti í 324 milljónir evra, Barcelona fær svo bronsið og keypti fyrir 256 milljónir evra. Aðeins eitt lið hefur á sama tíma fengið yfir milljarð evra í félagaskipti en það er franska liðið Monaco. Chelsea hefur selt leikmenn fyrir 868 milljónir, Juventus 787 og Benfica 780.

Þegar heildarveltan er skoðuð síðan árið 2010 er Lille í sérflokki og hefur skilað 249 milljón evra hagnaði. Monaco 215 og Genoa er með 193 milljónir í hagnað. Sé taprekstur skoðaður á sama tíma má sjá að City er í milljarði evra í mínus. PSG er 901 milljón í mínus og Manchester United hefur keypt leikmenn fyrir 833 milljónir meira en þeir hafa selt. Barcelona er í fjórða sæti með 720 milljónir í mínus. Þessi fjögur lið skera sig úr. Athygli vekur að Chelsea skilaði 128 milljón evra hagnaði en félagið er í félagaskiptabanni og getur því ekki keypt leikmenn þetta árið né það næsta.