Íslenska karlalandsliðið í fótbolta lagði Færeyjar að velli með einu marki gegn engu í vináttulandsleik liðanna í Þórshöfn í kvöld.

Það var Mikael Neville Anderson sem skoraði sigurmark Íslands um miðjan seinni hálfleik en hann hafði skömmu áður komið inná sem varamaður.

Birkir Bjarnason átti þá sendingu á Albert Guðmundsson, sem leysti Kolbein Sigþórsson af hólmi í framlínu íslenska liðsins í hálfleik.

Albert skallaði boltann fyrir Mikael sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið með hnitmiðuðu skoti.

Það var fátt um fína drætti hjá leikmönnum íslenska liðsins fram að markinu. Besta færi Íslands fékk Kolbeinn eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Jón Daði Böðvarsson renndi þá boltanum á Birki sem fann Kolbein einan á auðum sjó í vítateig færeyska liðsins.

Kolbeini tókst hins vegar ekki að koma boltanum í netið og af þeim sökum náði hann ekki að skáka Eiði Smára Guðjohnsen sem markahæsta leikmanni í sögu íslenska karlalandsliðsins.

Þeir hafa hvor um sig skorað 26 mörk fyrir íslenska liðið.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað:

Mark: Ögmundur Kristinsson

Vörn: Valgeir Lunddal Friðriksson (Sveinn Aron Guðjohnsen), Hjörtur Hermannsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Alfons Sampsted

Miðja: Aron Einar Gunnarsson (F) (Guðmundur Þórarinsson), Birkir Bjarnason (Andri Fannar Baldursson), Ísak Bergmann Jóhannesson (Stefán Teitur Þórðarson)

Sókn: Jón Dagur Þorteinsson, Kolbeinn Sigþórsson (Albert Guðmundsson), Jón Daði Böðvarsson (Mikael Neville Anderson)