Ísold Fönn gerði sér lítið fyrir og framkvæmdi fyrsta þrefalda Flip sem íslenskur skautari hefur fullgert í keppni og ekki nóg með það þá var það í samsetningu með tvöföldu Toeloop.

Dæmdist þessi samsetning hjá henni á plúsum og skilaði henni 7,13 stigum. Að auki reyndi hún tvo þrefalda Lutz sem dæmdust ófullsnúnir (>). Alls gerði Ísold sjö þreföld stökk samanlagt í prógrömum sínum á mótinu sem verður að teljast einstakt fyrir íslenskan skautara. Allt þetta skilaði henni silfri á mótinu.

Ísold Fönn flutti til Sviss fyrr á þessu ári og æfir undir leiðsögn Stéphane Lambiel sem sjálfur er tvöfaldur heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum. Ísoldu, sem er einungis 14 ára gömul, hefur gengið vel á æfingum í Champéry og hefur tekið miklum framförum eins og sjá má.

Íslenskir skautarar halda áfram að skrifa íslensku skautasöguna og það verður gaman að fylgjast með þessum unga og upprennandi skautara í vetur.