Knattspyrnustjórinn Kjetil Knutsen, sem hefur verið fyrsti kostur forráðamanna Rosenborgar í ráðningarferlinu, hefur neitað að taka við liðinu og því munu forráðamenn liðsins leggja allt kapp á að ná samningum við Milos, sem er nú knattspyrnustjóri sænska úrvalsdeildarfélagsins Hammarby.

Í samtali við NRK vildi Ivar Koteng, formaður stjórnar Rosenborgar ekkert tjá sig þegar eftir því var leitað.

Samkvæmt heimildum Nettavisen, er Milos nálægt því að ná samkomulagi við Rosenborg.

Milos hefur gert frábæra hluti undanfarin ár, bæði með Rauðu Stjörnunni frá Serbíu sem og Hammarby. Þar áður hafði hann einnig þjálfað sænska félagið Mjallby sem og íslensku liðin Breiðablik og Víking Reykjavík við góðan orðstír.

Góður árangur liða sem að Milos hefur þjálfað undanfarin ár, hefur opnað augu stærri félaga. Hann var í upphafi nóvembermánaðar fyrst orðaður við þjálfarastöðuna hjá norska félaginu Rosenborg, sem er án efa eitt stærsta knattspyrnufélag Norðurlandanna undanfarna áratugi.

Samkvæmt heimildum Nettavisen hafa forráðamenn Rosenborgar bæði átti viðræðum við Milos og Kjetil Knutsen undanfarnar vikur.