Fyrrum NBA leikmaðurinn Adreian Payne, lést í skotaárás í Orlando, Bandaríkjunum á mánudaginn. Payne var aðeins 31 árs gamall en 29 ára karlmaður var handtekinn í tengslum við skotárásina og er nú í haldi lögreglu.

Eftir að hafa verið skotinn var Payne fluttur á sjúkrahús þar sem að hann var úrskurðaður látinn.

Payne lék á sínum tíma 107 leiki í NBA deildinni yfir fjögur tímabil með Atlanta, Minnesota og Orlando eftir að hafa verið valinn fimmtándi í nýliðavalinu árið 2014.

Eftir NBA ferilinn skipti Payne um umhverfi og reyndi fyrir sér í Evrópuboltanum þar sem hann spilaði í atvinnumannadeildum í Tyrklandi, Frakklandi, Grikklandi og svo spilaði hann í Kína áður en hann gekk til liðs við Juventus í Litháen en hann lék fyrir liðið fyrr á árinu.