Fyrrum liðsfélagarnir í enska landsliðinu, Wayne Rooney og Jamie Vardy, hunsuðu hvorn annan er þeir fylgdu eiginkonum sínum í dómssal í morgun en í dag fer fram sjötti dagurinn í meiðyrðamáli Rebekuh Vardy gegn Coleen Rooney.

Dagurinn í dag er sá fyrsti sem Jamie Vardy lætur sjá sig með Rebekuh eiginkonu sinni í dómssal en hann hélt þétt í hendi hennar í morgun við komuna í dómssal. Daily Mail segir frá því að engin samskipti hafi orðið á milli Jamie Vardy og Wayne Rooney en búist er við því að sá síðarnefndi gefi vitnisburð í málinu í dag.

Deilur Rebekuh Vardy og Coleen Rooney hafa staðið yfir í langan tíma en Rebekah á­kvað að fara með málið fyrir dóm­stóla eftir að Co­leen á­sakaði hana um að leka upp­lýsingum um einka­líf hennar til breska slúður­miðilsins The Sun. Co­leen greindi opin­ber­lega frá á­sökunum sínum í Twitter­færslu í októ­ber árið 2019

Roon­ey fylgdist náið með Insta­gram reikningi sínum og setti inn efni sem að­eins vinir og vanda­menn fengu að­gang að, þar með talið Rebekah Var­dy. Hún segist smám saman hafa fækkað í þeim hópi sem sá efnið sem hún setti inn þar til að Rebekah Var­dy stóð ein eftir.

Í gær gaf Coleen Rooney vitnisburð í málinu þar sem hún sagði meðal annars frá stundinni sem hún segist hafa gómað Vardy.

At­vikið sem full­vissaði Roon­ey um að Var­dy væri upp­spretta lekans kom í tengslum við eina gervi­færsluna sem hún setti inn á Insta­gram og tengdist leka í kjallaranum á húsi fjöl­skyldunnar.