Manchester United hefur farið afleitlega af stað í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið. Liðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni á móti Brentford og Brighton og fyrrum leikmenn félagsins sem hafa upplifað glæsta tíma með félaginu trúa vart sínum eigin augum er þeir horfa á núverandi stöðu félagsins.

Botnsæti deildarinnar vermir Manchester United eftir fyrstu umferðirnar og nýr knattspyrnustjóri félagsins Erik ten Hag er fyrsti knattspyrnustjóri Manchester United til þess að tapa fyrstu tveimur deildarleikjum sínum síðan árið 1921.

Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United hefur í gegnum tíðina verið mjög gagnrýninn á eigendur félagsins, Glazer-fjölskylduna og hann segir stuðningsmenn félagsins vera að upplifa útrýmingu Manchester United þessa stundina.

„Ég hélt að Manchester United myndi gera betur en Brentford gjörsamlega gekk frá þeim," sagði Neville eftir 4-0 tap Manchester United um helgina. „Ég hef horft á Manchester United í 42 ár og get ekki fundið verra augnablik. Hlutirnir hafa aldrei verið eins slæmir og í fyrri hálfleiknum."