Knattspyrnumaðurinn Christian Atsu, sem leikið hefur fyrir félög á borð við Chelsea, Everton og Newcastle, er fastur undir rústum í kjölfar jarðskjálftans í Tyrklandi í nótt. Þetta segir í fréttum þar ytra.

Hinn 31 árs gamli Atsu er á mála hjá Hatayspor. Félagið er staðsett í Kahramanmaras, þar sem jarðskjálftinn hafði mikil áhrif. Skjálftinn, sem mældist 7,8 að stærð á Richter, hefur nú orðið að minnsta kosti 1.300 manns að bana í Tyrk­landi og Sýr­landi. Fleiri þúsund manns eru einnig særðir.

Þá reið yfir eftirskjálfti að stærð 7 á Richter nokkrum klukkustundum eftir skjálftann í nótt. Talið er að tala látinna gæti hækkað töluvert.

Atsu, sem gekk í raðir Hatayspor frá Al-Raed í Sádi-Arabíu í sumar, er nú fastur undir rústum ásamt Taner Savut, yfirmanni íþróttamála hjá félaginu.

Björgunaraðgerðir standa nú yfir og biðja liðsfélagar og stuðningsmenn fyrir tvemenningunum.

Atsu lék síðast með Hatayspor í gærkvöldi. Þá skoraði hann sigurmarkið í uppbótartíma gegn Kasimpasa.

Atsu er ekki sá eini sem er talinn fastur undir rústum í kjölfar jarðskjálftans. Það er Ahmet Eyup, markvörður Yeni Malattaspor einnig.