Fyrrum bakvörðurinn Sergi mun stýra liði Barcelona næstu dagana á meðan félagið gengur frá ráðningunni á næsta þjálfara félagsins eftir að Ronald Koeman var sagt upp í gær.

Sergi hefur stýrt B-liði Barcelona undanfarna mánuði en hann lék á sínum tíma 382 leiki fyrir Börsunga og 56 leiki fyrir spænska landsliðið.

Erlendir fjölmiðlar fullyrða að Xavi, næst leikjahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi, verði næsti þjálfari liðsins en að hann taki við taumunum eftir landsleikjahlé.

Xavi er þessa dagana að stýra liði Al Sadd í Katar og eru forráðamenn Barcelona í viðræðum við Al Sadd um að leysa Xavi undan samningi.