Bandaríski skíðakappinn Kyle Smaine er látinn, 31 árs að aldri, eftir að hafa lent í snjóflóði í Japan um helgina. Smaine varð heimsmeistari árið 2015 í free-style keppni Alþjóða skíðasambandsins.
Smaine var staddur í hlíðum Hakuba Norikura, skammt frá Tsugaike-skíðasvæðinu, þegar hann lenti í flóðinu. Skíðamaður frá Austurríki lést einnig í slysinu en ekki hefur verið greint frá nafni hans. Viðbragðsaðilum tókst að bjarga þriðja manninum, Adam Ü, úr flóðinu.
Adam sagði í samtali við Mountain Gazette að þremenningarnir hafi heyrt þegar flóðið fór af stað og séð það koma niður hlíðina. Þeir hafi reynt að leita skjóls og átt fótum sínum fjör að launa.
Í frétt Mirror kemur fram að yfirvöld hafi gefið út snjóflóðaviðvörun á svæðinu fyrir helgina.