Igor Denisov sem var um tíma fyrirliði rússneska karlalandsliðsins í knattspyrnu, gagnrýndi Vladimír Pútín og ákvörðun rússnesku ríkisstjórnarinnar að ráðast inn i Úkraínu í viðtali sem birtist á Youtube í vikunni.

Í viðtalinu viðurkennir Denisov að hann sé ef til vill að koma sér í vandræði enda er bannað að gagnrýna innrásina á opinberum vettvangi.

Hann skoraði fyrsta mark Zenit þegar rússneska félagið vann Rangers í úrslitaleik UEFA Cup 2008 og lék 54 leiki fyrir rússneska landsliðið.

„Þessi innrás er hræðileg, algjör martröð. Ég veit ekki hvort að ég verði hnepptur í fangelsi eða drepinn fyrir að segja þetta, en ég verð að vera hreinskilinn.“

Í viðtalinu segist Denisov hafa skrifað forseta Rússlands, Vladimír Pútín, bréf og viðurkennir að hann sé ekki lengur stoltur af uppruna sínum.