Í skýrslu nefndarinnar er farið ofan í saumana á þremur málum sem varðar niðurstöður úttektar á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum.

Þar er vitnað í frétt Fréttablaðsins frá fyrsta september sem segir að lögreglan í Hafnarfirði hafi verið kölluð að heimili í Garðabæ hinn 5. júlí 2016 eftir að landsliðsmaður í fótbolta, „gekk þar berserksgang, braut allt og bramlaði og hafði í hótunum við þáverandi eiginkonu sína.“

Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, greindi frá því fyrir nefndinni að einstaklingur hefði hringt í sig vegna óláta og gruns um heimilisofbeldi. Klara hefði deilt þessum upplýsingum með Geir Þorsteinssyni, Magnúsi Gylfasyni og síðar Guðna Bergssyni en KSÍ hefði á sínum tíma ekki haft aðrar upplýsingar en að málið væri í farvegi hjá lögreglu.

Þar sem málið hefði átt sér stað utan landsliðsverkefnis hefði KSÍ ekki litið svo á að það væri í verkahring sambandsins heldur lögreglu að aðhafast frekar í málinu. KSÍ hefði löngu síðar fengið þær upplýsingar að kæran á hendur A hefði verið dregin til baka.

Magnús, sem árið 2016 sat í landsliðsnefnd A-landsliðs karla en var þá hvorki starfsmaður KSÍ né í stjórn sambandsins, greindi úttektarnefndinni frá því að hann hefði hitt landsliðsmanninn og eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð til. Þar hefði landsliðsmaðurinn greint honum frá því sem hefði gerst um nóttina. Ekkert hefði bent til þess á þeim fundi að eiginkonan hefði sætt ofbeldi eða að hún hygðist leggja fram kæru.

Nágranni hafði samband við KSÍ lýsti áhyggjum af eiginkonunni. Óskaði hann eftir því að einhver af þjálfurum landsliðsins hefði samband við sig vegna málsins. Engin viðbrögð bárust hins vegar frá KSÍ í framhaldinu og vissu hvorki Lars Lagerback né Heimir Hallgrímsson um þau skilaboð.

Nadine Guðrún Yaghi, sem á þessum tíma starfaði sem fréttamaður hjá Vísi og Stöð 2, greindi nefndinni frá því að hún hefði fengið veður af því að lögreglan hefði verið kölluð að heimilinu vegna óláta og þess að grunur léki á heimilisofbeldi. Kvaðst Nadine hafa haft samband við KSÍ vegna málsins og spurst fyrir um það en orðið lítt ágengt. Engin frekari viðbrögð hafi komið frá KSÍ en nokkrum dögum síðar hafi almannatengill hringt í hana og gert lítið úr málinu.

Geir Þorsteinsson, sem á þessum tíma var formaður KSÍ, kvaðst í skýringum sínum til nefndarinnar minnast samtals við Magnús Gylfason í landsliðsnefnd um leikmann sem virtist eiga í erfiðleikum í sínu sambandi og að lögreglan hefði verið kölluð til.

Geir kvað málið aldrei hafa verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða.“ Þá hafi það ekki tengst verkefni KSÍ að því er hann best vissi.

Í skýringum til nefndarinnar kvað Geir þó „vel kunna að vera“ að hann hafi bent Magnúsi á að almannatengill gæti hjálpað í tengslum við umfjöllun fjölmiðla og að hann hafi rætt við þann almannatengil, það sem hann hafi gert það „nokkuð reglulega þegar málefni tengd KSÍ voru til umfjöllunar í fjölmiðlum“. Nefndin skoðaði greiðslur til þessa almannatengils og fékk hann greiðslur frá sambandinu þennan téða mánuð.

Við athugun sína ræddi nefndin við fyrrverandi eiginkonu A sem lýsti vonbrigðum sínum með hvernig KSÍ hefði tekið þessu máli.