Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur í dag fyrri leik sinn við Slóveníu í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember.

Íslenska liðið hefur æft af krafti frá því fyrir páska. Valinn var 21 leikmaður í æfingahóp. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Katrín Ósk Magnúsdóttir, Sunna Jónsdóttir og Tinna Sól Björgvinsdóttir fóru ekki með til Ljubljana.

Þá sleit Steinunn Björnsdóttir krossband þegar Ísland komst áfram úr forkeppni mótsins í mars síðastliðnum. Af þeim sökum mun mikið mæða á Ásdísi Guðmundsdóttur, leikmanni Þórs/KA, sem er eini hreinræktaði línumaðurinn í hópnum í þessum leik.

Liðin mættust í undankeppni EM í mars árið 2018, fyrri leikurinn í Laugardalshöll endaði með jafn­tefli, 30-30, en Slóvenar höfðu betur í síðari leiknum ytra með 10 marka mun, 28-18.

Slóven­ía var í efri styrk­leika­flokk­n­um þegar dregið var í umspilið en Ísland var nokkuð heppið með mótherja. Slóven­ar höfnuðu í sextánda sæti Evr­ópu­móts­ins árið 2020 og í nítj­ánda sæti á heimsmeistaramótinu árið 2019.– hó