Knattspyrnufélagið Elliði stendur svo sannarlega á bak við formann sinn sem er ásamt dóttur sinni að ganga í gegnum erfiða tíma eftir fráfall eiginkonu sinnar. Félagið boðaði til samstöðuleiks á dögunum þar sem hrint var af stað söfnun fyrir fjölskylduna og yfir 2,5 milljónir íslenskra króna söfnuðust.

Frá þessu greinir Elliði í færslu á Facebook en leikur Elliða við KFG á Wurth-vellinum í Árbænum var umræddur samstöðuleikur. Fyrr í september átti sá sorglegi atburður sér stað að Helga, eiginkona Guðmundar Magnúsar Sigurbjörnssonar, formanns Elliða, varð bráðkvödd. Þau eiga saman tveggja ára dóttur.

„Gummi er ekki aðeins andlit Elliða heldur einnig hjarta félagsins—hann hefur haldið utan um allt sem viðkemur knattspyrnu- og rekstrarlegri hlið klúbbsins í áraraðir ásamt því að eiga fjölmarga leiki fyrir liðið og hafa verið fyrirliði þess. Gummi hefur reynst öllum sem komist hafa í snertingu við klúbbinn einstaklega vel," sagði í tilkynningu í lýsingu á viðburði sem var stofnaður í kringum samstöðuleik Elliða og KFG.

Nú greinir Elliði frá því að safnast hafi góð fjárhæð sem rennur til fjölskyldunnar.

„Þá er söfnuninni lokið og gekk hún ótrúlega vel. Samstaðan er ómetanleg. Alls söfnuðust 2.532.000 krónur! Stjórn, leikmenn, þjálfarar og aðstandendur Elliða þakka ykkur kærlega fyrir komuna á laugardag og ykkar framlag," segir í færslu Elliða sem birtist í gær.