Sergio Busquets, leikmaður Barcelona, er búinn að gera munnlegt samkomulag við Inter Miami um að miðjumaðurinn gangi til liðs við bandaríska félagið næsta sumar.

Busquets sem er 34 ára gamall hefur borið fyrirliðabandið hjá Barcelona síðan Lionel Messi yfirgaf félagið. Hann hefur unnið spænska meistaratitilinn átta sinnum á fjórtán árum í herbúðum spænska stórveldisins.

Samkvæmt katalónska fjölmiðlinum Sport er Busquets með ákvæði í samningi sínum um að framlengja um eitt ár til viðbótar en að hann sé ákveðinn í að breyta til eftir fjórtán ár í herbúðum Börsunga.

Hann er þriðji leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi með 685 leiki í öllum keppnum en nær ekki Xavi (767) né Lionel Messi (778) úr þessu.