Sama dag og Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik Stelpnanna okkar í undankeppninni fyrir EM 2023 verður þjálfarateymið eflaust með annað augað á nokkrum viðureignum samdægurs. Í lok dags ætti að liggja fyrir hvort kvennalandsliðið öðlist beinan þátttökurétt á fjórða Evrópumótinu í röð eða þurfi að fara í umspil líkt og fyrir EM 2009 og 2013. Undankeppninni lýkur ekki í dag því einhverjar viðureignir fara fram í febrúarmánuði. Myndin ætti að vera nokkuð skýr í kvöld, hvort kvennalandsliðið geti farið að huga að undankeppninni fyrir HM 2023 með EM á Englandi 2022 bak við eyrað eða hvort það þurfi að fara í sex liða umspil sem fer fram í apríl.

Fyrir leiki dagsins er Belgía með bestan árangur af þeim liðum sem eru í öðru sæti, með átján stig, tveimur stigum á undan Íslandi og Austurríki en þessi þrjú lið eiga einn leik eftir. Ítalir sem eru með fimmtán stig og eiga tvo leiki eftir geta því jafnað Belga að stigum en þurfa til þess að vinna sigur á geysisterku liði Dana í dag. Fyrri leik Dana og Ítala lauk með 4-0 sigri Dana og geta Danir gert Stelpunum okkar stóran greiða í dag með sigri.

Það sama á við um lið Sviss sem mætir Belgíu í dag þar sem allt annað en jafntefli hentar íslenska liðinu vel. Ef Belgar tapa geta Stelpurnar okkar skotist upp fyrir Belga og ef Sviss tapar og Ísland afgreiðir sinn leik er Ísland jafnt Sviss að stigum og með betri markatölu.

Markatalan gæti aftur komið inn í leik í G-riðli þar sem Austurríki, líkt og Sviss, er hársbreidd frá því að komast í lokakeppni Evrópumótsins annað skiptið í röð. Austurríki er líkt og Ísland með sextán stig þegar ein umferð er eftir og átján mörk í plús í markatölu fyrir leik gegn Serbíu á heimavelli. Ísland verður því að jafna árangur Austurríkis í kvöld til að halda þeim fyrir neðan okkur á listanum yfir stigahæstu liðin í öðru sæti sem komast beint inn á Evrópumótið.

Staðan er heldur flóknari í E-riðli þar sem Portúgal, Finnland og Skotland berjast sín á milli um efstu tvö sætin og eiga öll þrjá leiki eftir og eiga eftir að mætast innbyrðis. Annað sætið getur enn náð tuttugu stigum en líklegt er að þau skipti stigunum eitthvað á milli sín á lokasprettinum.