Hnefaleikagoðsögnin Tyson Fury segist alfarið hættur afskiptum af hnefaleikum. Frá þessu greinir hann í færslu á samfélagsmiðlum en Fury er hér á landi sem stendur og ræddi meðal annars við Fréttablaðið í gær. Þar var annað hljóð í honum.

,,Kærar þakkir til allra sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á minn feril í gegnum árin. Eftir löng samtöl hef ég endanlega ákveðið að láta gott heita af hnefaleikum og það á 34. afmæli mínu. Bon voyage," skrifar Fury í færslu á samfélagsmiðlum.

Í viðtali við Fréttablaðið í gær sagðist Fury vera mættur til Íslands til þess að ganga frá bardaga milli sín og Hafþórs Júlíusar Björnssonar.

,,Ég kom hingað til þess að láta þann bar­daga verða að veru­leika. Það er mögu­leiki á því að hann verði í fram­tíðinni en ekki núna því Haf­þór er ekki á svæðinu til þess að ganga frá þessu.“

Þetta er í fyrsta skipti sem Fury kemur til Ís­lands. ,,Já þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Ís­lands. Ég kann mjög vel við þetta land og væri til í að koma hingað aftur þegar það er að­eins jóla­legra og kaldara. Ég tel að það yrði frá­bært.“

Fury hafði áður hætt á toppnum fyrr á árinu og er ó­sigraður sem at­vinnu­maður í hnefa­leikum í 33 bar­dögum. Hann hefur unnið 32 af þeim bar­dögum og gert eitt jafn­tefli.