Það vakti mikla athygli um helgina þegar Joules Kounde spilaði heilan fyrri hálfleik með franska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu með hálsmen. Ekki er algengt að leikmenn spili með skartgripi á hæsta stiginu og vakti þetta upp furðu.

Þetta var til umræðu í HM-hlaðvarpi íþróttadeilar Torgs (Fréttablaðins og DV) í dag.

„Mér fannst skrýtið að hann fengi að spila heilan fyrri hálfleik. Ég hélt það væri löngu búið að taka fyrir að menn væru með skart inni á vellinum. Þetta var hálf fáránlegt,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson í þættinum.

Hörður Snævar Jónsson tók til máls og benti á að Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, hafi verið afar pirraður á Kounde.

„Hann var verulega pirraður út í Kounde. Hann vill æfa með þetta því þetta er einhver hjátrú.“

Hálsmen Kounde var fjarlægt undir lok fyrri hálfleiks.