Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður og lýsandi RÚV vekur athygli á áhorfstölum sem hafa verið birtar eftir landsleik Íslands og Portúgal á HM í handbolta í gærkvöldi. Ísland vann fjögurra marka sigur, 30-26 og Einar leiknum af mikilli snilld beint frá Kristianstad.
Niðurstöður áhorfsmælingar sem Valgeir Vilhjálmsson, markaðs- og þróunarfræðingur RÚV birti í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag vöktu athygli en þar greindi Valgeir frá því að landsleikurinn hafi skilað af sér 58% uppsöfnuðu áhorfi hér á landi.
Það verður að teljast afar gott en Einar Örn sá sér samt leik á borði og furðaði sig á þeim sem stilltu ekki inn á leikinn sem var hin mesta skemmtun.
„Hvað voru hin 42% eiginlega að gera," var svar Einars við færslu Valgeirs.
Valgeir bætti þá við að hluti af þeim sem mældust ekki í áhorfsmælingu gætu hafa verið að hlusta á beina lýsingu frá leiknum á Rás 2, sem var í höndum Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar, eða þá á Tenerife að sóla sig.
Ísland á aftur leik á HM á morgun þegar liðið mætir Ungverjalandi í 2. umferð riðlakeppninnar. Bæði lið unnu fyrstu leiki sína á mótinu og því mun sigurliðið á morgun gulltryggja sér sæti í milliriðlum.