Starfslok Eiðs Smára eru sögð tengjast persónulegum málefnum hans en samkvæmt heimildum DV má ástæðu starfslokanna rekja til gleðskapar á vegum KSÍ sem haldinn var eftir leik íslenska karlalandsliðsins gegn Norður-Makedóníu er liðið lauk keppni í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Katar.

Formaður Knattspyrnusambands Íslands, Vanda Sigurgeirsdóttir, hefur ekki tjáð sig um málið og það hefur Arnar Þór Viðarson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins ekki gert, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla til þess að fá viðbrögð.

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, furðar sig á þessum vinnubrögðum KSÍ í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Twitter: ,,Vanda var í vinnunni í dag en vildi bara ekki útskýra risastóra ákvörðun stjórnar KSÍ fyrir fjölmiðlum (og þar með fólkinu í landinu). Gerði sama fyrir ársþingið, neitaði að tala við fjölmiðla. Þetta er ekki einkafyrirtæki heldur opinbert batterí, stærsta sérsambandið."

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri vefsíðunnar fotbolti.net, tekur í svipaðan streng: ,,Sýnist fótboltahreyfingin þurfa að fara fram á að sett verði inn í starfslýsingu hálaunaðs formanns að hann þurfi að svara en fari ekki í felur þegar upp koma vandamál," skrifar Elvar Geir í færslu á Twitter og segir einnig að þetta gildi um fyrri formann sambandsins. Þetta hafi verið vandamál alltof lengi.

Samkvæmt heimildum DV var Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins, viðstaddur fund stjórnar KSÍ þegar að ákvörðun var tekin um að virkja uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára.

Heimildir mbl.isherma hins vegar að Vanda hefði viljað halda Eiði Smára í starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara. Samkvæmt heimildum mbl.is var stjórn KSÍ klofin í afstöðu sinni til þess hvort nýta ætti uppsagnarákvæðið í samningi Eiðs Smára.