Það var sögu­legur leikur sem spilaður var á Sauð­ár­króki á mið­viku­dags­kvöldið. Þá mætti Þróttur í heim­sókn í fyrsta leik Tinda­stóls í sögunni í efstu deild kvenna í knatt­spyrnu.

Hug­rún Páls­dóttir skoraði tíma­móta­mark fyrir Tinda­stól þegar hún kom liðinu yfir í leiknum en því miður fyrir heima­konur náðu gestirnir að jafna metin með marki sínu beint úr auka­spyrnu í upp­bótar­tíma leiksins.

„Eftir­væntingin fyrir þessum leik var mjög mikil og það var mikil spenna í leik­manna­hópnum, ég get alveg viður­kennt það. Það minnkaði ekki spennuna að sjá að bæjar­búar voru margir hverjir búnir að flagga á leik­degi og maður fann alveg fyrir hversu mikið stolt var í bænum yfir að við værum að fara að spila í efstu deild í fyrsta skipti,“ segir Hug­rún um að­draganda leiksins.

„Við pössuðum samt alveg upp á að draga andann djúpt áður en kom að leiknum og mér fannst spennu­stigið bara fínt þegar út í leikinn var komið. Við minntum okkur á það að við værum að fara út í fyrsta leik af mörgum og Þróttur væri lið sem við hefðum mætt áður. Þannig að mér fannst við bara vel stilltar þrátt fyrir að það væri auð­vitað smá hrollur í okkur,“ segir hún enn fremur.

„Það hjálpar okkur líka að við erum með sama kjarna og hefur farið upp um deildir síðustu ár og leik­manna­hópurinn er svipaður og í fyrra. Það er gríðar­lega góð liðs­heild í þessum hóp og ég held að það vinni með okkur að það eru sömu lykil­leik­menn í liðinu og sáu um að koma okkur upp um deildir.

Auð­vitað gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum bæði að bæta okkur sem eru fyrir og styrkja okkur til þess að festa okkur í sessi í þessari deild sem er klár­lega mark­miðið,“ segir Hug­rún sem hefur allan sinn feril leikið með Tinda­stóli.

„Að ná að skora í þessum leik var mögnuð til­finning og ég trúði því eigin­lega að þetta væri að gerast fyrst eftir að ég horfði á eftir boltanum fara í netið. Það tók smá tíma að fatta að þetta væri að gerast og ég áttaði mig eigin­lega ekki á því að þetta væri veru­leikinn fyrr en við vorum byrjaðar að fagna markinu.

Það var súr­sæt til­finning inni í klefa eftir leik. Við erum á­nægður með að vera komnar á blað og það er þægi­legt að fá stað­festingu á því sem við vorum nokkuð viss á fyrir þennan leik að við eigum klár­lega heima í þessari deild.

Í þeirri stöðu sem var komin upp vildum við að sjálf­sögðu fá þrjú stig og við vorum búnar að halda þeim vel í skefjum fram að markinu sem kom úr bara virki­lega góðu skoti beint úr auka­spyrnu. Það var ekkert við markinu að gera en það var mjög svekkjandi að ná ekki að halda út.

Mér finnst já­kvætt að stemmingin inni í klefa var sú að við vorum pirraðar að hafa ekki unnið og við getum tekið þann pirring með okkur í næstu verk­efni. Við náðum ekki að spila á okkar sterkasta liði í æfinga­leikjunum fyrir þennan leik og vorum að spila með alla okkur sterkustu leik­menn í fyrsta sinn í langan tíma.

Þeir leik­menn sem voru tæpir vegna meiðsla fyrir leikinn verða sterkari í næsta leik og svo er aldrei að vita hvort þjálfararnir séu að vinna í að styrkja liðið enn frekar. Það kemur bara í ljós,“ segir þessi 24 ára gamli leik­maður.

Næsti leikur Tinda­stóls er á móti Fylki í Ár­bænum á þriðju­daginn kemur.