Cristiano Ronaldo er enn fastur á þeirri skoðun sinni að vilja yfirgefa herbúðir Manchester United. Frá þessu greinir Sky Sports en Ronaldo mætti fyrr í vikunni á æfingasvæði Manchester United í fyrsta skipti á undirbúningstímabilinu og fundaði með knattspyrnustjóranum sem og forráðamönnum félagsins.

Þau fundarhöld leiddu ekki af sér breytta afstöðu af hálfu Ronaldo varðandi komandi tímabil. Aðeins tæpu ári eftir að hann gekk til liðs við Manchester United vill hann nú fara frá félaginu og fara til félags sem getur veitt honum tækifæri í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo og umboðsmaður hans, Jorge Mendes funduðu með forráðamönnum Manchester United fyrr í vikunni, þeir vilja ekki missa Ronaldo frá sér.

Sky Sports segir möguleikana fyrir Ronaldo af skornum skammti. Chelsea virðist út úr myndinni og þá virtust Bayern Munchen og Atletico Madrid stimpla sig út úr baráttunni um leikmanninn fyrr í vikunni með opinberlegum yfirlýsingum.

Ronaldo æfir nú með Manchester United en hvort hann verði í leikmannahópi liðsins í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í næstu viku á eftir að koma í ljós.