Um maraþonfund var að ræða hjá sambandinu. Fundurinn hófst klukkan 16 og stóð fram eftir kvöldi. Meðal niðurstaðna fundarins var að virkja uppságnarákvæði í samningi aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins, Eiðs Smára Guðjohnsen og hann hefur nú látið af störfum.

Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptardeildar KSÍ hefur áður látið hafa eftir sér að starfslok Eiðs snúi að persónulegum málefnum hans en að öðru leyti vill sambandið ekki tjá sig um ástæðu starfslokanna. Heimildir DV herma hins vegar að ástæðan tengist gleðskap sem var á vegum KSÍ eftir landsleik Íslands og Norður-Makedóníu í síðasta mánuði.

Undir 4.lið fundargerðar KSÍ segir að Vanda Sigurgeirsdóttir hafa opnað umræðu um landsliðsmál. Þar hafi verið rætt um ferð A-landsliðs karla til Rúmeníu og Norður-Makedóníu.

,,Áður hafði formaður hringt í alla stjórnarmeðlimi og greint þeim frá þeim málum sem til umræðu komu. Þar var rætt um starf og stöðu aðstoðarlandsliðsþjálfara A-liðs karla í kjölfar atvika sem hafa komið til kasta sambandsins.

Eiður Smári hafði hlotið áminningu í starfi síðastliðið sumar, áminningin var höfð í huga við ákvörðun stjórnarinnar.

,,Fyrir liggur áminning í starfi til umrædds starfsmanns frá því sl. sumar. Niðurstaða málsins varð sú að stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen komust að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla. Samkomulagið snýr að því að virkjað verður endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var milli hans og KSÍ og mun hann láta af störfum 1. desember næstkomandi," segir í fundargerð stjórnar KSÍ um málið.

Óvíst er á þessari stundu hver mun taka við starfi Eiðs Smára hjá landsliðinu en Heimir Hallgrímsson hefur verið orðaður við starfið.