Stjórn Everton mun funda í dag þar sem ákvörðun verður tekin um framhaldið hjá Marco Silva, knattspyrnustjóra félagsins.

Eftir 2-5 tap gegn erkifjendunum í Liverpool sem leyfðu sér að hvíla nokkra lykilleikmenn í gærkvöld er Everton í fallsæti að fimmtán umferðum loknum.

Liverpool skoraði fjórum sinnum í fyrri hálfleik gegn Everton og er það í fyrsta sinn í 84 ár sem Liverpool skorar fjögur gegn Everton í einum hálfleik.

Átján mánuðir eru liðnir síðan Silva tók við liðinu af Sam Allardyce og eftir kaflaskipt fyrsta tímabil hefur spilamennska liðsins á þessu tímabili ollið vonbrigðum.