For­sætis­ráð­herra Japans, Yos­hi­hide Suga, hefur full­yrt að Ólympíu­leikarnir fari fram í Tókýó í sumar þrátt fyrir að far­aldurinn sé í vexti þar í landi en leikunum var frestað fyrir sumarið 2020 vegna kóróna­veirufar­aldursins. Það virðist þó ekki ætla að stoppa yfir­völd núna.

Eins og staðan er í dag rúm­lega 239 þúsund manns greinst með veiruna í Japan og 3.337 látist eftir að hafa smitast, sam­kvæmt upp­lýsingum Johns Hop­kins há­skólans. Nýtt af­brigði veirunnar, líkt og það sem komið hefur upp í Bret­landi, veldur nú miklum usla í Japan og er óttast „sprengingu“ í far­aldrinum.

Vilja ekki að leikarnir fari fram

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið eiga Ólympíu­leikarnir að hefjast þann 23. júlí 2021 og Ólympíu­leikar fatlaðra þann 24. ágúst. Gífur­legur kostnaður hefur þegar farið í leikana og til að tryggja sótt­varnir og gætu leikarnir orðið þeir dýrustu í sögunni.

Sam­kvæmt könnun ríki­smiðilsins NHK er meiri­hluti Japanna and­vígur því að leikarnir fari fram og vilja margir að leikunum verði annað hvort frestað enn frekar eða jafn­vel af­lýst. For­sætis­ráð­herran segir aftur á móti að leikarnir muni fara fram og að fyllsta öryggis verði gætt.