Kristján Óli Sigurðsson, annar af sérfræðingum hlaðvarpsþáttarins Dr. Football, fékk að glugga aðeins í ársskýrslu KSÍ sem verður birt innan tíðar og fullyrðir að 50 milljón króna tap sé á rekstri sambandsins. „Ég náði að glugga í þennan reikning og mér brá. Það var tap á rekstri sambandsins árið 2019, í kringum 50 milljónir. Mér finnst það skellur því við erum að fá nánast óútfylltar ávísanir frá UEFA og FIFA á hverju einasta ári. Þetta er umhugsunarefni hvernig þetta er hægt,“ saegir Kristján Óli.

Hlaðvarpið er vinsælt meðal almennings og segir Kristján þó hann hafi ekki fengið alla skýrsluna í hendurnar hafi hann fengið tölurnar og ljóst að nú reyni á rekstrarhæfileika þeirra sem stjórna innan veggja KSÍ. „Ég fékk tölur en ekki alla skýrsluna en hún verður opinberuð innan tíðar. Þá getur hinn almenni gómur farið að glugga í hana,“ sagði Kristján og átti þá væntanlega við hlustendur.