Greint er frá því á vefsíðu Körfunnar að Valur sé að vinna í því að tryggja sér þjónustu Kristófers Acox úr KR og að forráðamenn deildarinnar séu óánægðir með framferð Valsmanna sem ræði við samingsbundna leikmenn úr öðrum liðum.

Valsmenn eru að þétta raðirnar fyrir komandi tímabil og eru þegar búnir að semja við Jón Arnór Stefánsson eftir að Finnur Freyr Stefánsson tók við liðinu.

Þá er Pavel Ermolinskij að hefja sitt annað tímabil í herbúðum Vals eftir skipti frá KR síðasta sumar.

Ljóst er að það yrði gríðarlegur styrkur fyrir Valsliðið að fá Kristófer sem var valinn besti leikmaður tímabilsins í karlaflokki tvö ár í röð, 2018 og 2019.

Kristófer á eitt ár eftir af samningi sínum við KR sem hann skrifaði undir síðasta sumar.

Þá fullyrða heimildarmenn Körfunnar að það sé óánægja meðal aðstandenda liðanna í Dominos-deild karla með framgöngu Valsmanna í leikmannamálum.

Samkvæmt heimildum Körfunnar eru Valsmenn búnir að ræða við erlendan leikmann og Íslendinga sem eru samningsbundnir öðrum liðum í deildinni.