Fjölmiðlar í Argentínu greina frá því að Diego Armando Maradona, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, sé látinn, sextugur að aldri.
Maradona gekkst nýlega undir bráðaaðgerð vegna blóðtappa í heila. Læknir hans, Leopoldo Luque, sagði í yfirlýsingu í gær að aðgerðin hefði gengið vel og Maradona væri vakandi.
Að því er fram kemur í fréttum argentínsku miðlanna Clarin og Ole fékk Maradona hjartaáfall í morgun í borginni Tigre í Argentínu. Hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar, að því er segir í fréttum argentínsku pressunnar.
Maradona átti ótrúlegan feril sem knattspyrnumaður og varð hann heimsmeistari með Argentínumönnum árið 1986. Það kom fáum á óvart að Maradona var valinn besti leikmaður mótsins. Á þeim tíma var hann leikmaður Napoli en áður hafði hann slegið í gegn með Argentinos Juniors og Boca Juniors í heimalandinu áður en hann samdi við Barcelona árið 1982. Maradona lék 91 landsleik fyrir Argentínu og skoraði í þeim 34 mörk.
Maradona var kosinn besti leikmaður 20. aldarinnar af FIFA. Hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli eftir að hafa leitt liðið til sigurs í ítölsku deildinni tvisvar, 1987 og 1990. Árið 2000 ákvað félagið að leggja treyju númer 10 til að heiðra argentínska snillinginn. Í Evrópu lék hann með Napoli, Barcelona og Sevilla. Þá er hann í guðatölu í heimalandinu eftir að hafa farið fyrir Argentínumönnum í þeirra fyrsta og eina sigri á HM sem fyrr segir.
Argentínumaðurinn var umdeildur enda glímdi hann við fíkniefnavanda á meðan ferlinum stóð. Eitt frægasta atvik knattspyrnusögunnar þegar hann skoraði með hendinni gegn Englandi í undanúrslitum HM.
Maradona þjálfaði tímabundið eftir að ferlinum lauk og stýrði hann til að mynda argentínska landsliðinu á HM 2010.
Fréttin hefur verið uppfærð.