Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta segir fullkomið aðstöðuleysi ríkja hjá landsliðinu. Aðstaðan sé upp á boðið sé þjóðarskömm og að við séum eins og molbúar í þessum efnum. Guðmundur var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem að hann fór yfir aðstöðuleysi landsliðsins.

Guðmundur segist halda því ákveðið fram að þetta sé aðstaða landsliðsins hér heima sé þjóðarskömm. ,,Mér finnst það bara vera þannig. Staðan er nú einfaldlega bara sú að við erum á undanþágu í dag og þetta hefur verið vitað lengi. Menn eru búnir að vera ræða þetta og hafa verið með digurbarkalegar yfirlýsingar til að mynda fyrir síðustu kosningar."

Hann segir Laugardalshöll einfaldlega ekki vera hæfa til þess að hýsa landsleiki í handbolta. ,,Ástæðan er sú að það er ekki nægilegt gólpláss, hvorki í kringum völlinn eða fyrir aftan mörkin. Þá hefur verið gerð krafa frá Evrópusambandinu að það séu áhorfendabekkir beggja megin við völlinn, það séu LED-skilti allan hringinn og síðan er gerð krafa um eðlilega vinnuaðstöðu fyrir fjölmiðlafólk og það er ekki til staðar. Þó það komi flottasta parket í heimi á Laugardalshöll þá dugar það ekkert til og mun ekki gera."

Staðan sé sú að íslenska landsliðið sé á vergangi. ,,Við erum háð því að við fáum að spila til dæmis á Ásvöllum í Hafnarfirði og fyrir þjóð sem vill láta taka sig alvarlega finnst mér þetta einfaldlega vera þjóðarskömm. Að það skuli ekki vera hægt að koma hér upp flottri þjóðarhöll sem allir geta verið stoltir af og landsliðin okkar geta spilað sína leiki í."

,,Ég hef farið mjög víða um Evrópu sem þjálfari og það er ekkert til sú þjóð í Evrópu sem á ekki þjóðarhöll, þetta þekkist ekki. En Íslendingar virðast einhvernveginn alltaf draga lappirnar og þeir sem ráða hér gera bara ekkert í málinu. Ég held því miður að þetta sé orðin einhverskonar pólitík á milli flokka. Annars vegar borgar og hins vegar ríkisstjórnar Íslands. Það er það sem ég óttast. Það hefur verið nefnd í gangi og búið að ræða þetta fram og til baka en þessi nefndarvinna þar núna bara að taka enda og menn þurfa að bretta upp ermar."

Guðmundur segist telja það eðlilegast að það yrði byggt upp hér fjölnota hús sem gæti hýst um 8 þúsund áhorfendur. ,,Það væri hús til framtíðar, tíminn er kominn."

Hann segir íslenska karlalandsliðið ávallt vera á vergangi, sama hvort um sé að ræða fyrir leiki eða æfingar. ,,Við höfum ekki í nein hús að vernda, við erum háðir félögunum um að fá tíma til þess að æfa. Þeir tímar eru á öllum tíma dags, ég get ekki ráðið því sem landsliðsþjálfari hvenær, hvar og hversu oft við æfum vegna þess að ég þarf bara að þiggja það sem að mér er rétt. Finnst mönnum þetta líka eðlilegt?"

Guðmundur segir fullkomið aðstöðuleysi ríkja ,,og það sem mest fer fyrir brjóstið á mér er að við eigum handknattleikslandslið á heimsmælikvarða. Þess vegna finnst mér það fullkomlega eðlilegt að það sé farið í þetta mál. Það er ekki einhver frekja eða, þetta er bara eðlileg krafa."

,,Við erum bara eins og molbúar, þetta er ekki hægt," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta í Bítinu á Bylgjunni í morgun.