Skráning í Laugavegshlaupið 2021 eða Laugavegur Ultra Marathon hófst klukkan tólf í dag en fullbókað var í hlaupið innan við klukkustund frá því að skráning hófst. Laugavegshlaupið fer fram laugardaginn 17. júlí.

Mikill áhugi var á hlaupinu en á tímabili hrundi skráningarkerfið vegna álags. Á Facebook-síðu hlaupsins má sjá ummæli frá fjölda svekktra hlaupagarpa sem segjast hafa æft allt árið fyrir hlaupið en ekki náð í gegnum sölukerfið í hádeginu og kvarta margir yfir því að illa hafi verið staðið að skráningunni.

Nokkrir krefjast þess að bætt verði við auka keppnisdegi á sunnudeginum til að koma til móts við fólk sem ekki náði að skrá sig.

Laugavegshlaupið fer fram í 25. skipti í ár en utanvegahlaup hafa notið mikilla vinsælda hér á landi síðustu ár. Í fyrra voru alls 559 hlauparar skráðir í hlaupið frá 20 mismunandi löndum, 191 konur og 368 karlar. Hlaupið hefst í Landmannalaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk.

Síðustu ár hafa erlendir hlauparar verið um 50% þátttakenda, en vegna sérstakra aðstæðna árið 2020 voru erlendir hlauparar aðeins 8% af þátttakendum og gera má ráð fyrir að það verði mestmegnis Íslendingar sem taka þátt í ár. Það var engu að síður Vaidas Zlabys frá Tékklandi kom fyrstur í mark í Laugarvegshlaupinu í fyrra á tímanum 4:17:31.