Þrátt fyrir naumt tap gegn Norðmönnum, 33-34, í leik upp á fimmta sætið á Evrópumótinu í handbolta geta Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu gengið stoltir frá borði eftir frammistöðu sína undanfarnar vikur.

Ári eftir að óvissa var um framtíðarhorfur liðsins eftir vonbrigðin á HM í Egyptalandi voru sterkustu handboltaþjóðir heims í stökustu vandræðum með lið Íslands, þrátt fyrir að Íslendingar væru að missa leikmenn úr liðinu á milli leikja vegna smita.

Sjötta sætið er besti árangur liðsins á stórmóti frá Evrópumótinu 2014 og fjórði besti árangur á Evrópumóti frá upphafi. Það er því hægt að taka margt jákvætt úr þessu móti inn í umspilið fyrir HM, þar sem Strákarnir okkar virðast vera að banka á dyrnar hjá bestu handboltaþjóðum heims á ný.

Í aðdraganda leiksins í gær þurfti Guðmundur Guðmundsson aftur að leggja leikinn upp með breyttum áherslum í fjarveru Arons Pálmarssonar. Framan af leik virtust Norðmenn vera með leikinn í sínum höndum og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik.

Í seinni hálfleik steig íslenska vörnin upp og hélt Norðmönnum í ellefu mörkum og mátti minnstu muna að stolinn boltinn á lokasekúndum leiksins hefði ráðið úrslitum, en þess í stað þurfti að grípa til framlengingar.

Janus Daði fór fyrir liði Íslands í framlengingunni en flautumark Noregs réð úrslitum og stráði salti í sár Íslendinga eftir hetjulega frammistöðu.

„Það er sjálfsagt að ætla að gera sitt besta, en þeir fóru í alla þessa leiki til að vinna þá. Þeir vissu að þeir gátu ekki stjórnað þessum aðstæðum og þjálfarateymið og leikmennirnir stjórnuðu þeim hlutum sem þeir gátu, og gerðu það frábærlega,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss, aðspurður út í þær áskoranir sem íslenska liðið mætti í milliriðlinum og frammistöðu liðsins.

„Þeir stigu upp og það kom maður í manns stað í hvert sinn. Leikmenn sem maður bjóst ekkert við að spiluðu mikið komu allir með eitthvað á borðið. Þessi Frakkaleikur er eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef séð. Magnað að fara í svona leik og hver einasti maður á nánast fullkominn leik,“ segir Halldór og tekur undir að Ómar Ingi sé kominn í fremstu röð á heimsvísu.

„Ómar Ingi er besti leikmaður mótsins og jafnvel besti handboltamaður heims í dag. Hann verður 25 ára á þessu ári og hefur nægan tíma til að taka framförum. Ég er viss um að árangurinn hefði ekki verið sá sami ef hann hefði fengið Covid og fyrir mér eru hann og Ýmir þeir sem við hefðum ekki mátt missa út á þessu móti. Ég er bjartsýnn fyrir næstu ár fyrir hönd landsliðsins, við fundum jafnvægi sem við höfum leitað að síðustu ár. Sóknarleikurinn var skynsamur og við töpuðum ekki mörgum boltum, varnarlínan og markvarslan góð þegar líða tók á mótið,“ segir Halldór, sem segir að það sé mikilvægt að láta kné fylgja kviði.

„Þetta var stórt stökk á milli ára og núna er það okkar að festa okkur í sessi meðal 6-7 efstu og minnka sviptingarnar. Við erum núna komin á þann stað að öll lið taki leiki gegn okkur alvarlega að nýju og við þurfum að standa undir því.“