Juventus sló Tottenham út úr Meistaradeild Evrópu í gærkvöld eftir 2-1 sigur á Wembley en Juventus vann einvígið samanlagt 4-3 og fer áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Eftir 2-2 jafntefli á Ítalíu í fyrri leik liðanna voru Tottenham-menn í fínum málum fyrir leik gærdagsins og enn betri málum eftir að Son Heung-Min kom þeim yfir í fyrri hálfleik. Gamla konan vildi ekki gefast upp og Gonzalo Higuain og Paulo Dybala sneru leiknum Ítölunum í hag með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla.

Eftir það hélt Juventus út og fagnaði sigri og um leið sæti í 8-liða úrslitunum en ítölsku meistararnir eru með augastað á að komast í úrslitaleikinn í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Síðasta tap Juventus gegn ensku liði kom þann 18. mars 2010 þegar Fulham undir stjórn Roy Hodgson vann 4-1 sigur gegn ítalska stórveldinu í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Fulham þurfti að vinna upp 3-1 forskot Juventus á Craven Cottege en Ítalirnir fengu tvö rauð í leiknum og töpuðu 4-1 þrátt fyrir að hafa komist yfir á annarri mínútu með marki frá David Trezeguet.

Síðan þá hefur Juventus leikið gegn Chelsea(2012, jafntefli og sigur), Manchester City(2015, tveir sigrar) og Tottenham(2018, jafntefli og sigur) án þess að tapa leik.