Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mun í dag leika sinn fyrsta leik undir stjórn Þorsteins H. Halldórssonar þegar liðið mætir Ítalíu í vináttulandsleik ytra. Liðin mætast svo á nýjan leik á þriðjudaginn.

Ísland leikur án tveggja lykilleikmanna í þessum tveimur leikjum en fyrirliði liðsins, Sara Björk Gunnarsdóttir, verður ekki með vegna meiðsla í hásin. Þá greindist Dagný Brynjarsdóttir með COVID á dögunum og ferðaðist þar af leiðandi ekki til Ítalíu.

Dagný, sem hefur komið sterk inn í lið West Ham síðustu vikurnar, hefur misst af síðustu leikjum íslenska liðsins vegna meiðsla, en hún er markahæsti leikmaður í núverandi leikmannahópi liðsins með 29 mörk.

„Æfingar hafa gengið mjög vel og við höfum verið að koma okkar áherslum að bæði í varnarleik og sóknarleik. Við ætlum að reyna að halda vel í boltann í þessum leikjum, spila sterkan og agaðan varnarleik og skapandi sóknarleik,“ segir Þorsteinn um komandi verkefni.

„Við munum dreifa álaginu á milli leikmanna í hópnum og það munu til að mynda allir útileikmenn spila í þessum tveimur leikjum. Það er ekki draumastaða að vera án Söru Bjarkar og Dagnýjar í þessum leikjum en svona er staðan bara.

Ég hef engar áhyggjur af því að aðrir leikmenn muni ekki fylla skarð þessara tveggja leikmanna inni á miðsvæðinu. Fjarvera þeirra reynir hins vegar á aðra leikmenn sem þurfa að stíga upp og sýna leiðtogahæfileika sína.

Þetta eru lið á svipuðu getustigi en við höldum að aðalliðið þeirra spili á þriðjudaginn en þeir leikmenn sem hafa minna spilað í undanförnum leikjum spili í dag,“ segir þjálfarinn enn fremur.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem gekk til liðs við Bayern Münch­en frá Breiðabliki fyrr á þessu er spennt fyrir komandi leikjum.

„Það er gaman að vera komin aftur undir stjórn Steina og þjálfarateymið hefur komið með ferska vinda á æfingarnar hérna á Ítalíu. Við höfum æft vel hérna og þjálfararnir hafa kynnt okkur sína hugmyndafræði sem ég og nokkrar í liðinu þekkjum mjög vel,“ segir Karólína Lea.

„Ég hef lært afar mikið á þeim tíma sem ég hef verið hjá Bayern bæði innan vallar og utan. Þeir ætla greinilega að kenna mér mjög margt á meðan ég verð þar. Þá eru þjálfarar liðsins með það á stefnuskránni að styrkja mig töluvert líkamlega og breyta mér í þýska vél.

Ég er að búa ein í fyrsta skipti og það reynir svolítið á. Mér hefur verið mjög vel tekið þarna og stelpurnar hafa hjálpað mér að aðlagast. Ég hef nú þegar bætt mig töluvert fótboltalega séð og þeir eru mjög viljugir í að bæta mig enn frekar í framhaldinu,“ segir þessi tæplega tvítugi sóknartengiliður um fyrstu kynni sín af München.

Leiknum sem spilaður verður á Coverciano, æfingasvæði ítalska landsliðsins, í Tirrenia, verður streymt beint á YouTube-rás KSÍ.