ÍR staðfesti í dag að Friðrik Ingi Rúnarsson, fyrrum landsliðsþjálfari, hefði verði ráðinn sem þjálfari karlaliðs ÍR.

Friðrik er flestum körfuboltaaðdáendum kunnugur eftir að hafa þjálfað Njarðvík, Keflavík, Grindavík og síðast Þór Þorlákshöfn sem aðalþjálfari.

Njarðvíkingur hefur einnig verið þjálfari karlalandsliðsins í körfubolta og aðstoðarþjálfari hjá uppeldisfélaginu.

Friðrik hefur þrisvar landað Íslandsmeistaratitlinum á þjálfaraferlinum sem spannar tuttugu ár ásamt því að vinna fjóra bikarmeistaratitla.

Þá hefur hann þrisvar verið kosinn þjálfari ársins en honum til aðstoðar verða þeir Ísak Máni Wíum og Sveinbjörn Claessen

ÍR hefur unnið einn leik af fimm í upphafi tímabils sem leiddi til þess að Borce Ilievski hætti með liðið á dögunum eftir sex ár í Breiðholtinu.