Friðrik Ingi Rúnarsson er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs Þórs Þorlákshafnar í körfubolta en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Það er Hafnarfrettir.is sem greinir frá starfslokunum.

Segir í tilkynningunni að vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir í samfélaginu hafi verið ákveðið að slíta samstarfinu á þessum tímapunkti.

Allt sé þetta gert í góðu samkomulagi beggja aðila en Friðrik Ingi tók við stjórnartaumunum hjá liðinu af Baldri Þór Ragnarssyni síðasta sumar.

Þór Þorlákshöfn hafnaði í níunda sæti Domino's-deildarinnar á nýliðinni leiktíð sem hætt var þegar ein umferð var eftir af deildarkeppninni vegna COVID-19 faraldursins.