Frjálsíþróttasamband Íslands, FRÍ, hefur kynnt nýtt auðkennismerki og ásýnd fyrir nýja tíma.

Hver sem greinin er, hlaup, stökk eða kast, innan vallar eða utan, hvort sem menn eru afreksmenn eða byrjendur, þá snýst íþróttin okkar um að gera sitt allra besta, að bæta sig. Þetta endurspeglast í nýju merki.

Hönnuðir eru Anton Jónas Illugason og Simon Viðarsson. Markmið nýrrar ásýndar er að setja skýra stefnu varðandi grafískt útlit sambandsins og nútímavæða það.

Frjálsíþróttasamband Íslands var stofnað árið 1947 og hefur starfað allar götur síðan. Sambandið fer með yfirstjórn frjálsíþróttamála á Íslandi auk þess að vinna að eflingu frjálsíþrótta í landinu. Til þess að gera sambandið sýnilegra var ráðist í endurmörkun þess snemma á þessu ári.

Nýja merki FRÍ fangar það sem allar greinar frjálsíþrótta eiga sameiginlegt, það er tilfinninguna og stoltið eftir sigur. Að lyfta upp höndunum til að fagna er okkur mannfólkinu eðlislægt og má finna ótal margar myndir af frjálsíþróttafólki fagna á þann hátt.

Áður en hafist var handa við að teikna nýtt merki var lögð áhersla á að greina ítarlega núverandi og fyrri merki FRÍ til þess að meta hvort ákjósanlegra væri að taka nýja stefnu eða endurteikna og lagfæra þáverandi merki. Niðurstaða þeirrar vinnu var sú að ákjósanlegra væri að taka nýja stefnu varðandi merki sambandsins.

Upprunalega merki FRÍ var teiknað af Jóhanni Bernhard á fimmta áratug síðustu aldar en hann var einn af fyrstu stjórnarmeðlimum sambandsins. Merkið var seinna endurteiknað og hefur verið merki sambandsins síðan þá.

Markmiðið að nýja merkið væri táknmynd allra

Eldra merki sambandsins sýnir grindahlaupara stökkva yfir skammstöfun sambandsins og er myndin umvafinn hringlóttum lárviðarkransi. Merkið þoldi illa skölun og erfitt var að samræma notkun þess á mismunandi snertiflötum, þar sem smáatriði þurftu að víkja fyrir læsileika.

Helsti galli merkisins var að það táknaði aðeins hluta þeirra greina sem falla undir frjálsíþróttahreyfinguna og vísaði til dæmis mun sterkar til karla en kvenna og greina innan vallar en utan, en utan vallar greinar eru hvað mest vaxandi í dag innan hreyfingarinnar. Í samtali við stjórn sambandsins var niðurstaðan sú merkið væri ekki nægilega opið með tilliti til þróunar og aðlögunar til framtíðar.

Einkennislitir FRÍ eru fánablár, tartanrauður og hvítur. Dökkblár og svartur koma þar á eftir til að styðja við litapallettuna. Fánablár og tartanrauður eru byggðir á íslensku fánalitunum en aðlagaðir til þess að vera eigulegri fyrir sambandið.

Litapalletta FRÍ er ekki ný af nálinni þegar litið er til íslenskra íþróttasambanda. Fánalitirinir verða oftast fyrir valinu og er það ekki af ástæðulausu, þar sem íþróttafólk keppir oft á tíðum á erlendri grundu á vegum sambandsins. Áður hafði sambandið eingöngu stuðst við bláan og hvítan sem einkennisliti sína en þá voru oft mikil líkindi við búninga finnskra keppenda. Ákvörðun var tekin um að bæta rauðum við í litapallettuna sem er notaður í smærri atriðum eins og endurspeglast í merkinu.