Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karls landsliðs í knattspyrnu mun síðar á árinu ganga til liðs við þjálfarateymi katarska félagsliðsins Al Arabi, sem er undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara.

Það er knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, sem grenir frá þessu í frétt á heimasíðu sinni.

Þeir félagar hafa áður unnið saman en Freyr sá um leikgreiningu þegar Heimir stýrði íslenska landsliðinu.

Þegar Freyr hefur störf verða þrír Íslendingar í þjálfarateymi Al Arabi en Bjarki Már Ólafsson sér um leikgreiningu fyrir Heimi. Þá spilar landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson með liðinu.

Freyr mun áfram gegna starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara og starfa með Erik Hamrén og þjálfarateymi hans við leikina mikilvægu í nóvember.

Um er að ræða úrslitaleik umspils um sæti á EM gegn Ungverjalandi í Búdapest, og síðan tvo síðustu leikina í Þjóðadeildinni, útileiki gegn Danmörku og Englandi.