Danska landsliðið varð í vikunni annað liðið til að tryggja sér þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu sem fer fram í Katar á næsta ári, á eftir Þjóðverjum. Danir innsigluðu farmiðann til Doha með 1-0 sigri á Austurríki. Það var áttundi sigurleikur Dana í röð, sem hafa haft alveg hreint ótrúlega yfirburði í riðlinum. Markatalan er 27 mörk í plús og hefur Kasper Schmeichel ekki enn þurft að sækja boltann í eigið net á þessum 720 mínútum sem eru liðnar.

Danska landsliðið hefur átt ótrúlegu gengi að fagna undanfarin ár. Á síðustu tveimur stórmótum hafa Danir fallið úr leik eftir venjulegan leiktíma gegn liðum sem léku til úrslita, gegn Króötum á HM í Rússlandi 2018 og gegn Englandi á EM fyrr á þessu ári. Ef leikurinn gegn Finnum, þar sem Christian Eriksen fékk hjartastopp en leikmenn Dana voru neyddir til að klára leikinn, er tekinn út fyrir svigann, eru það aðeins Belgar sem hafa unnið Dani í keppnisleik í venjulegum leiktíma undanfarin fimm ár.

Fram til þessa virðast Danir ekki hafa fundið fyrir fjarveru Eriksen sem var um árabil sóknartengiliðurinn sem leiddi sóknarleik liðsins, en varnarleikur liðsins hefur verið framúrskarandi. Danska liðið er nú 180 mínútum frá því að verða fyrsta evrópska  liðið í 47 ár til að fara í gegnum heila undankeppni fyrir stórmót án þess að fá á sig mark. Fyrra metið er í eigu Belgíu og Ítalíu sem náðu að halda hreinu í undankeppninni fyrir HM 1972 en þá voru aðeins sex leikir í riðlakeppninni. Metið í tíu leikja riðli er eitt mark sem er í eigu Serbíu frá undankeppi HM 2026.

Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby í Danmörku, sem mætti danska landsliðinu í hlutverki aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins, segir að það sé Dönum í hag hvað þeir eru sterkir á mörgum sviðum knattspyrnunnar.

„Það sem heillar mig mest er hvað þeir geta spilað á marga strengi í sínum leikjum. Þeir geta haft yfirburði í leikjum með boltann, þeir eru góðir án bolta. Þeir eru góðir að hápressa og mjög sterkir í lágpressunni. Þeir eru ekkert of flottir með sig til að leyfa andstæðingum að vera með boltann. Svo geta þeir sett kröfu á sig að vera með boltann. Ég er hrikalega hrifinn af þessu liði,“ segir Freyr, aðspurður hvað útskýri gott gengi danska landsliðsins undanfarin ár. Hann hefur um leið miklar mætur á þjálfara danska liðsins.

„Kasper Hjulmand er frábær þjálfari. Hann er svo hrikalega vel undirbúinn. Hann var í viðtali í gær eftir leik og var svo ánægður með að tryggja sig inn á HM. Þá getur hann byrjað að skipuleggja alla daga árið 2022. Hann er svo skipulagður og með skýra hugmyndafræði. Þeir skipta um leikkerfi en halda alltaf í sín gildi.“

Freyr tekur undir að það sé magnað afrek að vera 180 mínútum frá því að halda hreinu út alla undankeppnina, en til þess þurfa Danir að halda hreinu gegn Skotum og Færeyingum í næsta mánuði.

„Þetta er frábær árangur og Kasper Schmeichel hefur ekki haft mikið að gera. Hann grípur vel inn í og stjórnar en hann hefur ekki þurft að taka margar stórar vörslur. Svo eiga þeir ótrúlegt magn af gæða miðvörðum,“ segir Freyr.