Freyr Alexandersson, fráfarandi aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu og fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins, gerir upp árin sjö sem hann hefur unnið fyrir KSÍ á Instagram í dag þar sem hann segist hafa lagt líf og sál í starfið.

Freyr tók við kvennalandsliðinu fyrir rúmum sjö árum síðan og kom inn í þjálfarateymi karlalandsliðsins nokkrum árum síðar.

Hann hætti störfum hjá kvennalandsliðinu árið 2018 þegar hann var gerður að aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins við hlið Erik Hamrén og hefur því átt stóran þátt í vegferð Íslands á þrjú stórmót á sjö árum.

Undir stjórn Freys fór kvennalandsliðið á EM 2017 og var hann hluti af þjálfarateyminu hjá karlalandsliðinu sem fór á EM 2016 og HM 2018.

Í færslunni segir Freyr að eins og staðan sé í dag sé komið að endalokum hjá honum innan raða KSÍ og segist hann kveðja þakklátur í færslunni sem lesa má hér fyrir neðan.

Hann virðist ekki útiloka að hann komi áfram að íslenska landsliðinu en hann réð sig í starf aðstoðarþjálfara hjá Heimi Hallgrímssyni og Al Arabi í Katar fyrr á þessu ári.