Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, segist eiga von á erfiðum leik gegn Andorra þótt að Ísland stefni að sigri þegar liðin mætast á föstudaginn.

Freyr ræddi við blaðamenn um lið Andorra og Frakkland á blaðamannafundi í dag þar sem farið var yfir andstæðinga okkar í næstu leikjum.

Þar benti hann á að Andorra væri annað lið heim að sækja en það lið sem spilar á útivelli, þeir þekki sína styrkleika og hafi náð í góð úrslit á heimavelli.

Þá benti hann á að í síðustu sex keppnisleikjum á heimavelli Andorra hefði Andorra aðeins tapað einum leik gegn Portúgal en unnið leik gegn Ungverjalandi.

„Andorra vill hægja á leiknum, það getur verið erfitt að horfa á þá og leikgreina því þetta er ekki skemmtilegt þótt að við berum virðingu fyrir þessu. Þeir vilja brjóta á andstæðingum sínum og komast inn í hausinn á mönnum,“ sagði Freyr og hélt áfram:

„Í þeim leikjum sem ég sá voru að meðaltali 37 aukaspyrnur og þegar mest var 62 aukaspyrnur. Við þykjum harkalegir en það eru nítján aukaspyrnur að meðaltali í leikjum Íslands. Þeir munu reyna að brjóta leikinn upp en við förum auðvitað til að reyna að vinna leikinn.“